Berjumst gegn ofbeldismenningu og hvetjum ofbeldismenn til að axla ábyrgð.

Vertu hluti af lausninni

Skrifaðu undir núna

94%

ofbeldismanna eru karlkyns.*

Maggi

Maggi er heilsugúru og mikil útivistartýpa. Hann er með vinsælt hlaðvarp þar sem hann talar mikið um andlega og líkamlega heilsu, spíritisma og tengingu mannsins við náttúruna.
  • Besti vinur

    Sögurnar eru uppspuni

    Ljúfasti maður sem ég þekki! Hann er alltaf til staðar fyrir vini sína, það er enginn betri á trúnó en Maggi. Þessar sögur um hann eru algjör uppspuni. Ég veit ekki af hverju hún er að ljúga svona upp á hann, en það er alveg týpískt, auðvitað.
  • Aðdáandi

    Hann myndi aldrei gera svona

    Ég hlusta á hlaðvarpið hans Magga daglega, hann kemur mér alltaf í gott skap. Hann er svo fyndinn og klár, algjör sjarmur. Mér fannst svo flott hjá honum þegar hann svaraði öllum þessum ásökunum í þættinum hjá sér. Ég trúi honum. Hann myndi aldrei gera svona.
  • Fyrrverandi deit

    Stærstu mistök lífs míns

    Ég fór á stefnumót með Magga í fyrrasumar og það eru stærstu mistök lífs míns. Kvöldið byrjaði vel og hann heillaði mig alveg upp úr skónum. Þegar leið á kvöldið byrjaði hann að káfa meira og meira á mér, sama hvað ég sagði, og þegar ég reyndi að fara þá hélt hann mér niðri og nauðgaði mér.
  • 71%

    ofbeldismanna tengjast brotaþolum á einhvern hátt.*

    Óli

    Óli er fótboltaþjálfari og fyrrum atvinnumaður í fótbolta. Hann á tvær dætur með eiginkonu sinni og er nýorðinn afi. Á sumrin fer hann í veiði með félögum sínum og elskar að bjóða fólki heim í grillpartí.
  • Leikmaður

    Ég fylgdist lítið með 

    Það eru fáir sem lifa sig jafn mikið inn í leikinn og Óli. Þvílíkt passion! Ég fylgdist lítið með málinu þegar hann var látinn hætta sem þjálfari hjá kvennaliðinu, fannst það ekki koma mér neitt við. Hann er allavega geggjaður þjálfari og mjög góður í að peppa okkur strákana.
  • Tengdamamma

    Fáránlegt að hann þurfi að missa...

    Ég get varla ímyndað mér betri tengdason en hann Óla. Hann er frábær pabbi og stelpurnar eru svo heppnar með hann. Ég dáðist að þrautseigjunni í honum að gefast ekki upp þegar hann var látinn fara sem þjálfari hjá kvennaliðinu. Það er alveg fáránlegt að menn geti bara misst vinnuna sí svona. Hann var bara að vera vinalegur við stelpuna, eins og hann er við alla.
  • Fyrrum liðsfélagi

    Ég hafði heyrt sögur af honum

    Óli var þjálfarinn minn í nokkur ár. Ég hafði heyrt sögur af óþægilegri hegðun hjá honum og fór fljótlega að upplifa hana sjálf þegar ég byrjaði í liðinu. Hann byrjaði á að senda mér skilaboð á kvöldin sem urðu fljótt óviðeigandi og kynferðisleg. Svo fann hann alltaf afsökun til að snerta mig á æfingum og reyndi oft að ná mér einni. Ég tilkynnti hann til félagsins eftir að hann króaði mig af inni í klefa, káfaði á mér og reyndi að kyssa mig.
  • 74%

    ofbeldismanna vinna sér inn traust eða byggja upp tilfinningaleg tengsl áður en þeir beita ofbeldi.*

    Jonni

    Jonni er þrítugur tónlistarmaður og tveggja barna faðir úr Vesturbænum. Hann byrjar alla morgna í Vesturbæjarlaug og fer reglulega með börnin sín út á leikvöll. Á kvöldin og um helgar er Jonni á fullu að gigga og það er alltaf góð stemming í kringum hann. 
  • Amma

    Indæll en óheppinn

    Hann Jonni minn er svo indæll drengur. Hann skutlar mér alltaf til læknis og kíkir í kaffi á sunnudögum. Ótrúlega leiðinlegt hvað hann er alltaf óheppinn með kærustur samt.
  • Umboðsmaður

    Hann hefur þurft að þola mikið

    Jonni er algjört topp eintak. Alltaf hress og skemmtilegur og ótrúlega hæfileikaríkur drengur. Ég fann virkilega til með honum þegar allar þessar sögur fóru af stað um hann, ömurlegt hvað hann hefur þurft að þola mikið. 
  • Fyrrverandi

    Sambandið var frábært fyrst

    Ég var með Jonna í nokkur ár og sambandið var frábært fyrst, hann var svo sjarmerandi og ljúfur. Ofbeldið hófst eftir rúmlega ár í sambúð, bæði andlegt og líkamlegt, og hann hótaði því reglulega að deila nektarmyndum af mér á netinu ef ég myndi hætta með honum. Þegar ég komst loksins frá honum stóð hann við orð sín og sendi myndirnar á alla fjölskylduna mína og yfirmanninn minn.
  • 39%

    þeirra sem beita stafrænu ofbeldi eru makar eða fyrrverandi makar.*

    Hvað get ég gert?

    1. Sýnt brotaþolum stuðning
    2. Skoðað hugmyndir mínar um kynlíf, mörk og samþykki á gagnrýninn máta
    3. Frætt mig um kynferðisofbeldi, birtingarmyndir þess, orsakir og áhrif
    4. Látið í mér heyra ef einhver í kringum mig segir óviðeigandi brandara eða gerir lítið úr kynferðisofbeldi

    Ég ætla hvorki að viðhalda ofbeldismenningu né upphefja ofbeldismenn

    Signup

    Tölfræðin er unnin upp úr gögnum úr skýrslu Stígamóta um Ofbeldismenn á Íslandi. Gögnin byggjast á svörum 3.118 brotaþola sem sóttu sér þjónustu Stígamóta á árunum 2013-2021.

    Skýrslan er aðgengileg hér.

    Allar persónur og sögur sem birtast á síðunni eru skáldaðar. Myndirnar af persónunum voru búnar til með gervigreind. Öll líkindi við raunverulega einstaklinga eða atburði eru tilviljanakennd.